BAUHAUS 100 – Júní 2019

75.000 kr.

11. – 17. Júní 2019

.. að hugsa heiminn uppá nýtt

Weimar – Dessau – Berlín

BAUHAUS ferð/námskeið undir leiðsögn
Hjálmars Sveinssonar & Óskar Vilhjálmsdóttur 

Sækja námskeiðslýsingu á PDF formi

Hreinsa
Vörunúmer: Á ekki við Flokkar: ,

Leiðangur á slóðir BAUHAUS í Weimar, Dessau & Berlín í tilefni þess að vorið 2019 eru hundrað á síðan Bauhausskólinn var stofnaður

BAUHAUS (1919 – 1933) var lifandi hugmyndasmiðja og tilraunavettvangur á sviði frjálsra lista og nytjalista, hönnunar, arkitektúrs og kennsluaðferða. Stofnendur skólans ætluðu sér að umbylta hversdagslífinu, sem hafði verið undirokað af lélegum lífsskilyrðum, og skapa grundvöll fyrir góðu lífi fyrir alla í nýju lýðræðislegu samfélagi. Engin stefna í hönnun og byggingarlist hefur haft jafn mikil áhrif á hið byggða umhverfi, íbúðarhús, íbúðir og húsbúnað, síðustu 100 árin. Áhrifin hafa engu að síður verið tvíræð og að sumu leyti mótsagnakennd. Það gerir Bauhaus ennþá meira spennandi.

Leiðarlýsing:

Ferðin hefst á flugvellinum Tegel í Berlín 11. júní 2019. Mælt með flugi FI528 með Icelandair til Tegel, vélin lendir 13:05 í Berlín (TXL)

Þriggja til fjögurra tíma akstur suður til Weimar. Við gerum stuttan stans í Potsdam til að fá okkur hressingu. Komum milli 17.00 og 18.00 til Weimar. Stuttur göngutúr um miðborgina þegar búið er að tékka inn. Gistum á nýju fallegu íbúðarhóteli í miðjum gamla bænum – sem leggur áherslu á að vera vistvænt bæði í hönnun og rekstri. Frjálst kvöld, sniðugt að vera búin að panta borð á einhverjum af þeim góðu veitingastöðum sem borgin hefur uppá að bjóða t.d. Scharfe Ecke.

Miðvikudagur 12. Júní
Dagur til að kynnast fallegu menningarborginni Weimar. Walter Gropius stofnaði Bauhausskólann snemma árs 1919. Skömmu áður hafði lýðveldi verið stofnað í fyrsta sinn í Þýskalandi og kennt við borgina. Í frægri stefnuyfirlýsingu sem Gopius gaf út í apríl þetta ár er hefðbundinni virðingarröð listgreina og iðngreina hafnað og sagt að “byggingin” (Der Bau) sé lokatakmark allra myndlistargreina.

Við skoðum skólabygginguna þar sem Bauhausskólinn var stofnaður og ræðum byltingarkenndar kennsluaðferðir sem þar voru iðkaðar. Að því loknum röltum við yfir í fallegan, gamlan almenningsgarð þar sem áin Ilm rennur og skoðum “Haus am Horn”, hreinræktað bauhauseinbýlishús sem var byggt í tilraunaskyni 1923 og er nú á heimsminjaskrá UNESCO. Að lokum skoðum við splúnkunýtt og flott Bauhaussafn í miðbænum.

Frjálst kvöld. Við mælum með Köstritzerbjór sem er úr héraðinu sem og Thüringer Klösse, Rostbrätl eða Sauerbraten.

Fimmtudagur 13. Júní
Ekið til Dessau strax um morguninn, tæpur 2ja tíma akstur.
Bauhausskólinn var fluttur til Dessau 1925 þegar orðið var ólíft í Weimar fyrir svo framsækinn, alþjóðlegan skóla vegna ofsókna öfgafullra þjóðernissinna. Skoðum eina frægustu byggingu Bauhaustímans, skólahúsið sem Gropius hannaði. Þar fáum við okkur hádegisverð og tékkum okkur inn á nýuppgerða og mjög flotta Bauhaus-heimavist frá þriðja áratugnum. Skólinn í Dessau samanstóð af þremur meginhlutum; skólanum sjálfum, vinnustofum og heimvist stúdenta. Öll húsgögn og innréttingar voru hönnuð af nemendum og kennurum skólans. Byggingarnar voru eins konar stefnuyfirlýsing Gopiusar og tákn alls þess sem Bauhaus stóð fyrir. Byggingasamstæðan sýndi samruna hins tæknilega, félagslega og fagurfræðilega sem Gropius hafði alltaf stefnt að. Við skoðum okkur betur um í Dessau.
Skoðum nærumhverfið síðdegis og göngum yfir í listamannahúsin sem voru hönnuð og byggð fyrir kennara við skólann. Borðum svo á fallegum stað sem heitir “Das Kornhaus” við ána Elbe. Gistum í einföldum en fallegum og björtum herbergjum á Bauhausheimavistinni.

Föstudagur 14. Júní
Annar dagur í Dessau. Öfugt við Weimar fór Dessau mjög illa út úr heimsstyrjöldinni. Stórum hluta borgarinnar var eitt í loftárásum. Dessau var iðnaðarborg og þar voru meðal annars smíðaðar flugvélar. Eftir að Bauhaus flutti til Dessau varð skólinn þekktur sem miðstöð hinnar svokölluðu „fagurfræði vélarinnar“ sem hvatti til einfaldleika og stöðlunar forma.
Við skoðum okkur um í Dessau og rifjum merkilega sögu. Keyrum meðal annars í úthverfi borgarinnar sem heitir Dessau-Törten og skoðum athyglsivert raðhúsahverfi hannað undir merkjum Bauhaus fyrir lágtekjufólk.
Kvöldverður í skemmtilegum bjórgarði. Önnur nótt í Dessau.

Laugardagur 15. Júní
Komum til Berlínar um hádegisbil og fáum okkur hádegisverð. Gistum næstu tvær nætur á skemmtilegu boutique hóteli við Savigniplatz.
Árið 1932 var Bauhausskólanum ekki lengur vært í Dessau, nasistar komnir í meirihluta í borgarstjórninni, og skólinn fluttur til Berlínar. Ludwig Mies van der Rohe var þá orðinn skólastjóri. Skólinn tók til starfa í gamalli símaverksmiðju en þurfti að hætta starfsemi 10 mánuðum síðar þegar nasistar höfðu hrifsað til sín völdin í Þýskalandi með blóðugu ofbeldi. Nasistarnir litu svo á að yfir Bauhausskólanum svifi andi sósíalisma og óþjóðhollrar heimsborgarastefnu.
Við skoðum Neue National Gallerie eftir Mies van der Rohe og Hansaviertel í eftirmiðdaginn.

Sunnudagur 16. Júní
Dagur í Berlín. Við skoðum Siemensstadt, borgarhluta sem var byggður á 4. ártatugnum og meðal annars hannaður af Walter Gropius. Kíkjum á hina frægu Turbinehalle sem Peter Behrens hannaði. Skreppum svo suður í Hufeisensiedlung sem er líklega besta dæmi um það sem kallað hefur verið Berliner Moderne.

Mán 17 jún 2019
Brottför frá Berlín. Við mælum með flugi Icelandair sem leggur af stað um 14 frá Berlín Tegel og lendir 15:40 í Keflavík.

Verð: 1,335 €* 
miðað við tvo í herbergi
Aukagjald vegna einstaklingsherbergis: 381 €

Innifalið:
Kynningarfundur og fyrirlestur í Reykjavík í mars/apríl
Leiðsögn (Hjálmar Sveinsson & Ósk Vilhjálmsdóttir)
Öll ferðalög í Þýskalandi
6 gistinætur í Weimar, Dessau og Berlin með morgunverði
Aðgangur að söfnum og sýningum
Opin kort i almenningssamgöngur í Dessau og Berlín

*Flug er ekki innifalið en við mælum með FI528 til Berlínar 07:40, 11. júní og heimferð með FI529 frá Berlín Tegel 17. júní, 14:05 sem lendir 15:40 á þjóðhátíðardegi.