Marrakesh – Skynheimar – apríl 2020

60.000 kr.

dimbilvika & páskar 2020

Sköpunarsmiðja með Haraldi Jónssyni

9 daga námskeið í Marrakesh fyrir alla þá sem vilja virkja og styrkja sköpunarkraftinn

Hreinsa
Vörunúmer: Á ekki við Flokkar: , ,

Könnunarleiðangur og vinnusmiðja þar sem þátttakendur leggja leið sína um margslungna skynheima þessarar fornu borgar, verða fyrir áhrifum, safna efnivið/ gögnum sem hver og einn umbreytir í orð, myndir, efni og hreyfingar. Hver dagur hefur sinn þráð og þema sem saman mynda litríkan vefnað skynhrifa um huga þátttakenda og líkama borgarinnar. Við eigum samastað í riad miðsvæðis en gistum í næsta nágrenni. Sameiginlegir morgun- og hádegisverðir. Morgunjóga og íhugunarstund í boði fyrir áhugasama. Fjölda leiðangursfélaga verður stillt í hóf.
Haraldur Jónsson myndlistarmaður leiðir hópinn og Ósk Vilhjálmsdóttir myndlistarmaður verður innan seilingar til halds og trausts. Bæði hafa þau áratuga reynslu af leiðsögn og könnun ólíkra staðhátta á síkvikum mörkum lífs og lista.

8. apríl
Ferðadagur. Þátttakendur sóttir á flugvöllinn í Marrakesh. Heimili okkar í Marrakesh er svokallað riad hefðbundið marokkóskt fjölskylduhús með garði í miðju, opið til himins og þaksvölum. Við komum okkur fyrir í riadinu sem er í miðri medinuni, gamla bænum innan borgarmúranna.

9. apríl
Við komum saman eftir morgunverð. Haraldur leiðir okkur í gegnum dagskrána, línur eru lagðar og tónar slegnir. Eftir nærandi samverustund færum við okkur út, könnum staðhætti og glöggvum okkur á nánasta umhverfi; moska, kóranskóli, grænmetismarkaður, kryddmarkaður, bakarí, slátrari. Við búum okkur til sjónrænar vörður og lærum að rata um rangala medínunnar. Við heimsækjum vefara, koparsmiðjur, sútara og skósmiði. Við endum daginn á torginu fræga Djama el Fna þar sem við kynnumst alþýðuleikhúsi sem hefur starfað látlaust í 1000 ár.

10. apríl (föstudagurinn langi)
Við deilum uppgötvunum úr könnunargöngu gærdagsins. Hugkort dregið, kveikjur birtast og flæði fer af stað. Við finnum þræði og vinnum bæði sér og saman. Við myndum nýjar tengingar úr þeim fléttum sem fæðast í ferlinu, rifjum upp, skoðum og berum saman bilin. Föstudagur er bænadagur og þá er aðeins rólegra yfir borginni. Flestar handverkssmiðjur eru lokaðar en sjá má fólk uppbúið á leið til bæna.

11. apríl
Hlutir/gripir eru viðfangsefni dagsins. Um morguninn fer hver í sínu lagi í leiðangur um nágrennið og kannar heim og veruleika hlutanna. Við finnum og færumst til, rennum í grun, við göngum á lykt, sjáum og snertum. Við færum fangið í hús og bregðum á leik með fenginn. Seinnipartinn leggjum við leið okkar í Mellah (=salt), gamla gyðingahverfið og skoðum líka kasbah hverfið. Þar er veitinga- og samkomustaðurinn Café Clock en á laugardögum kemur fram kvennahljómsveit sem flytur trommu-tónlist að hætti berba. Tilvalið að fá sér léttan snæðing í leiðinni.

12. apríl (páskadagur)
Litir tengja saman heiminn og þeir breytast yfir daginn þegar birtan færir þá til. Litir framkalla sífellt óvænt stefnumót og mismunandi merkingu þegar þeir koma saman. Á þessum slóðum streymir stöðugt mikið litaflóð. Við flytjum liti og tengjum með ýmsum efnum og ólíkum miðlum.

13. apríl
Það má segja að andlit sé landakort af lífi hvers og eins og andlit borgarinnar eru bæði ótal og mörg. Við skoðum andlitin í kringum okkur, veljum eitt og sjáum hvert það leiðir. Við fléttum og spinnum saman sögur úr því sem verður fyrir valinu. Í lok dags leggjum við leiðina í hammam.

14. apríl
Staður. Hver staður býr yfir anda. Staðaranda. Staðarandinn getur verið einn og margur í senn. Við fáum heimsókn frá einum og hann deilir með okkur sköpun sinni og lýkur upp heimana fjöld. Það verður farið í saumana og komist á snoðir með ljóðavefnaði og tónastund. Café Clock býður uppá sögustund á þriðju- og fimmtudagskvöldum.

15. apríl
Í Marokkó skrifar fólk í aðra átt en við erum vön. Við erum leidd styrkri hendi inn í arkitektúr tungumálsins, táknin í teikningunni og skrautlega heima skriftarinnar, kallígrafíunnar. Við prófum okkur áfram með bambuspenna á lofti. Seinnipartinn er tilvalið fyrir áhugasama að taka þátt í tónlistardagskrá (jam session) gnaua í boði Café Clock.

16. apríl
Fyrir hádegi höldum við áfram að spreyta okkur á kalligrafíunni. Eftir hádegisverð úrvinnsla. Frjáls seinnipartur til að njóta borgarinnar. Við öndum við að okkur andrúmsloftinu, lítum í kringum okkur og sækjum söfn og sérkennilega staði innan og utan borgarmarkanna. Áhugasvið þátttakenda ræður för.
td. Jardin Majorelle, Ljósmyndasafnið, Secret Garden

17. apríl
Heimferð – eða viðbótardagar í Marokkó. Við hjálpum gjarnan við að skipulegga td. heimsókn í strandbæinn Essaouira, eyðimerkurferð í Sahara eða gönguferð í Atlas fjöllum.

Verð 1.540 € 
miðað við að tveir deili herbergi
aukakostnaður vegna sérherbergis = 420 €

Innifalið:
Kennsla, leiðsögn, námskeið, kennslugögn
Akstur til og frá flugvelli
Gisting í 9 nætur
Hálft fæði (morgunverður + hádegis- eða kvöldverður)

Flug er ekki innifalið í verði en við aðstoðum við bókun á flugi