Marrakesh – Skynheimar – dymbilvika 2022

60.000 kr.

dymbilvika & páskar. 2022

Sköpunarsmiðja með Haraldi Jónssyni & Ósk Vilhjálmsdóttur

12 daga námskeið í Marrakesh og Há-Atlasfjöllum fyrir alla þá sem vilja virkja og styrkja sköpunarkraftinn

Hreinsa
Vörunúmer: Á ekki við Flokkar: , ,

Könnunarleiðangur og vinnusmiðja þar sem þátttakendur leggja leið sína um margslungna skynheima þessarar fornu borgar, verða fyrir áhrifum, safna efnivið/ gögnum sem hver og einn umbreytir í orð, myndir, efni og hreyfingar. Hver dagur hefur sinn þráð og þema sem saman mynda litríkan vefnað skynhrifa um huga þátttakenda og líkama borgarinnar. Við eigum samastað í riad miðsvæðis en gistum í næsta nágrenni. Sameiginlegir morgun- og hádegisverðir. Morgunjóga og íhugunarstund í boði fyrir áhugasama.
Haraldur Jónsson myndlistarmaður leiðir hópinn og Ósk Vilhjálmsdóttir myndlistarmaður verður innan seilingar til halds og trausts. Bæði hafa þau áratuga reynslu af leiðsögn, kennslu og könnun ólíkra staðhátta á síkvikum mörkum lífs og lista.

8. apríl: Ferðadagur. Þátttakendur sóttir á flugvöllinn í Marrakesh. Heimili okkar í Marrakesh er svokallað riad hefðbundið marokkóskt fjölskylduhús með garði í miðju, opið til himins og þaksvölum. Við komum okkur fyrir í riadinu sem er í miðri medinuni, gamla bænum innan borgarmúranna.

9. apríl: Við komum saman eftir morgunverð. Haraldur leiðir okkur í gegnum dagskrána, línur eru lagðar og tónar slegnir. Eftir nærandi samverustund færum við okkur út, könnum staðhætti og glöggvum okkur á nánasta umhverfi; moska, kóranskóli, grænmetismarkaður, kryddmarkaður, bakarí, slátrari. Við búum okkur til sjónrænar vörður og lærum að rata um rangala medínunnar. Við heimsækjum vefara, koparsmiðjur, sútara og skósmiði. Við endum daginn á torginu fræga Djama el Fna þar sem við kynnumst alþýðuleikhúsi sem hefur starfað látlaust í 1000 ár.

10. apríl: Við deilum uppgötvunum úr könnunargöngu gærdagsins. Hugkort dregið, kveikjur birtast og flæði fer af stað. Við finnum þræði og vinnum bæði sér og saman. Við myndum nýjar tengingar úr þeim fléttum sem fæðast í ferlinu, rifjum upp, skoðum og berum saman bilin.
Seinnipartinn leggjum við leið okkar í Mellah (=salt), gamla gyðingahverfið og skoðum líka kasbah hverfið. Þar er veitinga- og samkomustaðurinn Café Clock. Café Clock býður uppá sögustund á þriðju- og fimmtudagskvöldum. Tilvalið að fá sér léttan snæðing í leiðinni. Auk þess er áhugasömum boðið að taka þátt í tónlistardagskrá (jam session) gnaua í boði Café Clock.

11. apríl: Hlutir/gripir eru viðfangsefni dagsins. Hver fyrir sig leggur í leiðangur um nágrennið og kannar heim og veruleika hlutanna. Við finnum og færumst til, okkur rennur í grun, við göngum á lykt, sjáum og snertum. Við færum fangið í hús og bregðum á leik með fenginn og uppgötvum óvæntar tengingar milli hluta og efna, áferðar og merkinga.

12. apríl: Litir tengja saman heiminn og þeir breytast yfir daginn þegar birtan færir þá til. Litir framkalla sífellt óvænt stefnumót og mismunandi merkingu þegar þeir koma saman. Á þessum slóðum streymir stöðugt mikið litaflóð. Við flytjum liti og tengjum með ýmsum efnum og ólíkum miðlum.

13. apríl: Í Marokkó skrifar fólk í aðra átt en við erum vön. Við erum leidd styrkri hendi inn í arkitektúr tungumálsins, táknin í teikningunni og skrautlega heima skriftarinnar, kallígrafíunnar. Við prófum okkur áfram með bambuspenna á lofti.
Frjáls seinnipartur til að njóta borgarinnar. Við öndum að okkur andrúmsloftinu, lítum í kringum okkur og sækjum söfn og sérkennilega staði innan og utan borgarmarkanna. Áhugasvið þátttakenda ræður för.
td. Jardin Majorelle, Ljósmyndasafnið, Secret Garden

14. apríl: Fyrir hádegi höldum við áfram að spreyta okkur á kalligrafíunni. Eftir hádegisverð úrvinnsla. Föstudagurinn langi hefur ekki mikla merkingu á þessum slóðum en föstudagur er bænadagur og þá er aðeins rólegra yfir öllu. Flestar handverkssmiðjur lokaðar en sjá má fólk uppbúið á leið til bæna.
Það má segja að andlit sé landakort af lífi hvers og eins og andlit borgarinnar eru bæði ótal og mörg. Við skoðum andlitin í kringum okkur, veljum eitt og sjáum hvert það leiðir. Við fléttum og spinnum saman sögur úr því sem verður fyrir valinu.

15. apríl: Við dagrenningu höldum við út úr borginni og upp til fjalla þar sem við kynnumst heimkynnum berba, menningu og náttúru Há-Atlasfjalla næstu tvo dagana. Hér glittir enn í kviku fortíðarinnar og daglegt líf hefur sáralítið breyst í þúsundir ára.Við komum okkur fyrir á þægilegu gistiheimili og leggjum síðan land undir fót og könnum nágrennið. Veðurfarið er milt á þessum árstíma og áhrifamikil reynsla að kynnast staðháttum, mannlífi og gróðurfari í hugljómandi landslagi með léttri göngu um svæðið. Í lok dags snæðum við saman kvöldverð að hætti heimamanna og berum saman uppgötvanir dagsins.

16. apríl:  Dagur í fjallaþorpi berba. Við kynnumst hversdegi fjallabúa og tökum þátt í daglegum störfum þeirra. Hér gefst einstakt tækifæri til að komast í snertingu við veruleika þeirra með því að taka til hendinni og leggja þeim lið. Í lok dags sækjum við heim seiðkarl sem opnar okkur áður óþekktar víddir. Að loknum kvöldverði höldum við uppskeruhátíð og deilum drögum að þeim verkum sem tekið hafa á sig mynd og orðið til í ferðalaginu.

17. apríl:  Rólegur morgun í fjallasal. Ferðumst til baka til Marrakesh síðdegis *

18. apríl: Hugað að heimferð, frjáls dagur í Marrakesh

19. apríl: Heimferð – eða viðbótardagar í Marokkó.

Verð:
1236 EUR –
 dbl herbergi, sameiginlegt baðherbergi (takmarkað framboð)
218 EUR  – viðbótarkostnaður v/prívat baðherbergi
verð miðast við að tveir deili herbergi
aukakostnaður vegna sérherbergis 164/ 322 EUR

Innifalið:
Kennsla, leiðsögn, námskeið, kennslugögn
Flugvallatransfer
Svæðisleiðsögn í Marrakesh og í Atlasfjöllum
Kaligraphy námskeið
Leiðangur í Há-Atlasfjöllum, akstur, leiðsögn
Gisting í 8 nætur í riadi í Marrakesh, 2 nætur á gistiheimili í Atlasfjöllum
Hálft fæði (morgunverður + hádegis- eða kvöldverður)

Fjöldi þáttakenda: 6 – 14

Flug er ekki innifalið í verði en við aðstoðum við bókun á flugi 

* Hér er möguleiki að bæta við 5 daga gönguferð í Atlasfjöllunum