Þjórsárver gönguferð með bakpoka, 5 dagar

35.000 kr.69.800 kr.

20. júlí 2023

Þjórsárver eru einstök í veröldinni; þar býr þriðjungur allra heiðagæsa á jörðinni og safarík gróðurþekjan þekur allt. Silfurtærar lindir spretta úr jörðu. Flæðiengið fær taktfasta vökvun af jökulvatni við rætur Hofsjökuls þar sem sjálf Þjórsá á upptök sín. 
Friðlandið í Þjórsárverum er á lista Ramsarsamningsins sem alþjóðlega mikilvægt votlendissvæði.

Leiðsögumenn: Ósk Vilhjálmsdóttir & Margrét H. Blöndal Hópur: 6-14 manns

Hreinsa
Vörunúmer: Á ekki við Flokkar: ,

Þjórsárver með viðkomu í Kerlingarfjöllum

Einstök gönguferð inn að miðju Íslands. Í fjallaþyrpingunni Kerlingarfjöll er eitt magnaðasta og leyndardómsfyllsta háhitasvæði landsins umkringt háum líparítfjöllum. Leiðin liggur yfir í gjörólíkt landslag friðlandsins suður af Hofsjökli. Þjórsárver eru sannkölluð gróðurvin hálendisins. Jökulvatnið kvíslast þar eins og háræðanet um svæðið og gefur því næringu. Þarna er kafagróður og eitt stærsta heiðargæsavarp í heiminum.

1. dagur: Kerlingarfjöll
Ferðin byrjar og endar á Flúðum. Brottför kl. 10 þar sem við eigum stefnumót við fjallatrukka. Ferðafélagar eru vel búnir með nesti og nýja skó. Ekið sem leið liggur um Kjöl í Kerlingarfjöll. Við nýtum daginn til að kynnast mögnuðum en lítt þekktum háhitasvæðum Kerlingarfjalla og njótum útsýnis yfir landslagsheildina. Ekið áfram magnaða leið á milli Kerlingarfjalla og Hofsjökuls um Illahraun og Setuhraun að mörkum friðlandsins í Þjórsárverum. Við sláum upp tjaldbúðum við Hnífá þar sem við gistum næstu nóttina.

2. dagur: Þjórsárver
Við byrjum daginn á því að vaða Blautukvísl í blómum prýddan náttstað undir Nautöldu. Þangað er um klukkustundar ganga með bakpoka. Við komum okkur þar fyrir í náttstað og tjöldum til þriggja nátta.  Við könnum forna gæsarétt ofaná Nautöldu og göngum inní Oddkelsver.

3. dagur: Þjórsárver
Næstu dagana erum við með létt á baki. Í dag er ferðinni heitið að gróðursælum múlum við Múlajökul þar sem við könnum plöntur, fornar reiðgötur, gæsaréttir og rústir. Við göngum um til baka um Nauthaga, gróðurvin í um 600 metra hæð þar sem háplöntur blómgast um hásumar.

4. dagur: Þjórsárver
Leiðangur í Jökulkrika og könnum heita laug undir Ólafsfelli. Gott að hafa handklæði og sundföt meðferðis þennan dag. Hugsanlegt að klífa Ólafsfell fyrir gönguglaða ferðafélaga.

5. dagur: Þjórsárver
Við tökum saman tjöld, öxlum byrgðar og þverum kvíslar. Síðan er ekið ökum um Gljúfurleit þar sem Þjórsá fellur í marga fallega fossa og flúðir.

Verð: 82.400 + VSK 

Innifalið:
Leiðangur með tvemur leiðsögumönnum
Akstur á fjallatrukk
Fjallateygjur

Ráðlagður búnaður:
Bakpoki (60-80 L), hlýr svefnpoki, tjald, dýna, prímus, gaskútur, pottur, matarskál, hnífur og skeið, vatnsflaska, hitabrúsi, góðir gönguskór, sandalar eða gamlir hlaupaskór til að vaða í, legghlífar, göngustafir.

Fatnaður:
Vatnsheldur hlífðarfatnaður (buxur og stakkur), undirföt (úr ull, silki eða gerfiefni), göngubuxur, þunn langerma peysa eða skyrta, lopapeysa eða þykk flíspeysa, þunnir fingravettlingar, ullar vettlingar, húfa og/eða buff, 3-4 pör göngusokkar og 1 par ullarsokkar fyrir kvöldin, sundföt.

Matur: Ferðafélagar sjá sjálfir um mat og matseld

Smádót:
Tannbursti, tannkrem, sólarvörn, sólgleraugu, lítinn skyndihjálparpoka, salernispappír, kveikjara, lítið handklæði, vasahnífur, höfuðljós, góð bók, myndavél, auka batterí.

Ursula Jüneman

Þjórsárver

Áður en minn gamli skrokkur getur ekki lengur farið í svona ferðir þá sló ég til og bókaði mig í ferð í Þjórsárver með Hálendisferðum. Hef áður farið með þessu fyrirtæki í 2 ferðir, yfir Fimmvörðuháls í Þórsmörk og í Kerlingarfjöll, báðar ferðir mjög eftirminnilegar.

Í Þjórsáver hef ég ekki farið áður nema í eina dagsferð í frekar vondu veðri, einungis fengið smá smjörþef af þessu stórkostlega svæði austan undir Hofsjökli. Frá þeim stað sem bíllinn skilaði okkur eftir tók gangan með öllum farangri að tjaldbúðunum ekki meira en klukkustund. Strax í byrjun varð að takast á við kaldar jökulár, en með góðri leiðsögn var þetta ekkert mál. Maður kemst einfaldlega ekki í Þjórsárverin nema gangandi, ríðandi eða sem fuglinn fljúgandi. Þannig er þetta svæði lítið þekkt og fáir hafa farið þar um. Tjaldbúðir voru slegnar upp undir Nautöldu, fallegum vel grónum stað með tærum uppsprettum. Strax um kvöldið gafst tækifæri að skoða sig um og dást að fjölbreytilegum gróðri sem er einstakur svona á miðju hálendinu. Við skoðuðum gæsaréttir þar sem menn smöluðu saman gæsum í sárum í gamla daga.

Ósk og Margrét töfruðu fram dýrindis kvölverð þar sem þær notuðu líka jurtir svæðisins. Maturinn var ótrúlega góður og auk þess var hugsað vel um hollustuna. Svona voru máltíðirnar flottar allan tímann. Ég komst að því að það að sofa í tjaldi á ekki lengur vel við mig. Ég svaf illa allar þrjár næturnar en lét það ekki á mig fá, upplifunin var einfaldlega stórkostleg í þessari ferð. Næstu tvo daga voru gönguferðir með dagspoka á prógramminu. Við skoðuðum svæðið meðfram Múlajöklarótunum þar sem fjölbreyttur háplantnagróður vex í 600 m hæð. Við tókum óteljandi ljósmyndir og Hjartafellið var mjög vinsælt myndefni. Leitt að sjá að stórir hestahópar hafa farið þar um og ollið talsverðum skemmdum á þessu blauta og viðkvæma landi. Aftur óðum við ár og læki. Langar leiðir tilbaka löbbuðum við um votlendi og vorum mest megnis í strigaskóm. Þreyttir en ánægðir göngumenn tóku jóga- og teygjuæfingar þegar komið var tilbaka og voru sprækir næsta morguninn þegar Ósk og Margrét vöktu okkur með fallegum söng. Þann dag lá leiðin í Jökulkrika alveg að jökulsporði og á leiðinni dáðumst við að stórum eyrarósabreiðum. Undir Ólafsfelli er heit laug og flestir tóku sér góðan tíma að fara í bað. Ógleymaleg stund. Kvöldhimininn var aftur mjög fallegur með öllum sínum litum og fjölbreyttum skýjum. Eftir kvöldmatinn var kvöldvaka. Í sameiningu var samkomutjaldið skreytt og það var sungið, sagðar sögur og farið út að dansa hókípókí og jenka. Ég hef sjaldan skemmt mér jafn vel.

Svo var brottfarardagurinn kominn áður en maður vissi af. Við pökkuðum saman og lögðum af stað aftur að bílnum sem beið í klukkutíma fjarlægð. Þau hraustustu gengu 2 ferðir með öllum birgðum. Á bakaleiðinni var aðeins komið við í Kerlingarfjöllum og vakti það einnig mikla lukku. Ég bjó lengi að öllum góðum minningum úr þessari ferð sem hefur verið skipulögð af mikilli fagmennsku og virðingu.

Ótrúlegt er að hugsa til þess að það eru ennþá öfl í okkar þjóðfélagi sem fetta fingur út í þennan vin í eyðimörk hálendisins, Þjórsárverin, með virkjunaráform í huga.

Ursula Jüneman